Það var ævintýri líkast hvernig vitneskjan um Reglu Musterisriddara barst til íslands. Og eins og í öllum góðum ævintýrum hófst sagan á þessa leið:Það var einu sinni norskur héraðs-dómari sem bjó í Vågåmo, smáþorpi nyrst í Guðbrandsdal. Hann hét Oscar Snare. Hann var félagi í Góðtemplarastúku og Musterisriddari síðan 1933. Svo var það í lok árs 1946 að hann las í íslenska dagblaðinu Morgunblaðið, sem hafði á einhvern undarlegan hátt borist honum, að maður að nafni Jón Árnason ætlaði að flytja erindi á góðtemplarafundi í Reykjavík.Oscar, sem lengi hafði haft huga á að komast í bréfasamband við einhvern bindindisbróður  á Íslandi, ákvað að skrifa þessum Jóni Árnasyni bréf, sem hann lét verða að þann 27. janúar 1947. Utan á umslagið reit hann aðeins: Jón Árnason, Reykjavík, Ísland. Hann þekkti ekki heimilisfang Jóns en gerði sér samt sem áður vonir um að bréfið kæmist til skila!Hægt er að sjá á umslaginu að það hafði verið opnað af póstinum og lokað aftur með límbandi og að innihald bréfsins hefur þannig getað vísað veginn til hins rétta Jónas Árnasonar.
Já einmitt, hins eina rétta Jóns Árnasonar!

Til þess að gefa mynd af manninum Jóni Árnasyni leyfi ég mér að vitna í bókina “Tempelriddarorden 1887 – 1962” eftir br. Efraim Almgren, en þar stendur eftirfarandi um hann:

“Fyrsti meistari Musterisins Heklu var prentarinn Jón Árnason. Hann var á margan hátt merkilegur maður. Hann fæddist 5. júní 1875 á bóndabæ á suðvesturlandi Íslands. Strax á barnsaldri flutti hann ásamt foreldrum sínum til Reykjavíkur og þar hóf hann prentnám á átjánda ári. Um aldamótin (1899/1900) vann hann í prentsmiðju í Osló í tvö ár. Síðar tók hann þátt í stofnun eigin prentsmiðju bókprentara í Reykjavík, þar sem hann vann sem prentari, einnig eftir að fyrirtækið hafði verið selt. Þar vann hann alla tíð, eða þar til hann náði 75 ára aldri og hann hætti vegna aldurs.

Sem ungur maður gerðist hann félagi í IOGT og voru það hans fyrstu kynni af reglustarfsemi. Hann flutti til Íslands æðsta stig þessarar reglu og sat um langt árabil í æðstu stjórn Góðtemplarareglunnar í landinu. Hann var um 12 ára skeið ritstjóri blaðs templara. Árið 1916 var hann vígður inn í Samfrímúrara Regluna í Noregi og 1921 flutti hann þá reglu til Íslands. Hann hlaut æðstu stig reglunnar og sat í æðstu stjórn hennar. Hann var lengi virkur félagi í Guðspekifélaginu á Íslandi. Hann var einnig þekktur stjörnuspekingur og fékkst við stjörnuspár í frístundum.”

Jón Árnason og Oscar Snare skrifuðust á, Jón fékk nokkra fræðslu um Reglu Musterisriddara, sem vakti mikinn áhuga hans á reglunni. Niðurstaðan varð sú að Jón ásamt góðtemplarabróður sínum Björgvin Jónssyni sóttu um inntöku í regluna og þann 29. nóvember 1947 voru þeir vígðir í RMR í RM Föroyar í Þórshöfn.

Jón Árnason átti síðan frumkvæðið að því að Reglan yrði stofnuð á Íslandi. Ásamt Björgvini Jónssyni undirbjó hann jarðveginn og í júlímánuði 1949 var öllum undirbúningi lokið og allt til reiðu til stofnunarinnar. Br. Nils Edberg frá Halmstad í Svíþjóð, sem kunni íslensku, kom þá til Íslands og með aðstoð Jóns og Björgvins voru 16 félagar vígðir í Regluna dagana 8 – 10 júlí. Síðan var VM Hekla formlega stofnað þann 17. júlí af þáverandi VSGM Thorleif Hansen, ásamt SGUM Bengt Sjölin. Stofnendur Musterisins voru 19.

Eftir þetta var það þessi regla sem átti hug Jóns Árnasonar allan. Hann fann að í henni sameinaðist albindindis-hugsjónin með dýpra innra reglustarfi og einstökum bræðralagsanda. Hann var manna fróðastur um reglustarf og táknmál. Hann var einstakur mælskumaður og sérstakur persónuleiki.

Samkvæmt öllu því sem hér að framan hefur verið sagt um Jón Árnason, er það alveg á hreinu að br. Oscar Snare gat ekki fundið heppilegri mann á Íslandi  til þess að skrifast á við um áhugamál sín, bindindi og reglustarf.

Jón Árnason var meistari musterisins Heklu frá stofnun til ársins 1959, eða í tæp 10 ár. Hann fæddist, eins og áður var sagt, árið 1875 þannig að hann var 74 ára gamall þegar musterið var stofnað. Í afmælisávarpi frá br. Thorleif Hansen SGM í tilefni af 80 ára afmælis Jóns ritaði hann:  Þegar ég í fyrstu fékk orðsendingu frá Jóni Árnasyni þess efnis að hann væri fús til þess að stofna Reglu musterisriddara á Íslandi, lét ég í ljós ákveðnar efasemdir um, að jafn aldurhniginn maður gæti tekið að sér svo mikið og erfitt viðfangsefni. Við nánari kynni af honum í gegnum bréfaskipti skildist mér, að það hlaut að vera eitthvað alveg sérstakt við þennan mann. Sem betur fer fékk Jón Árnason vilja sínum framgengt.

Vígslumusterið Hekla var hækkað í Þjónamusteri tæpum þrem árum eftir stofnun þess. Fyrsti fundarstaður musterisins var í kjallara Templarahallarinnar við Tjörnina í miðbæ Reykjavíkur. IOGT seldi þetta hús 1963 og varð Hekla þá að finna nýtt húsnæði fyrir starfsemi sína. Menn vissu að Samfrímúrarareglan var einnig að leita að hentugu húsnæði og í samvinnu við þá keyptu þessar tvær reglur 3ju hæð og rishæð í húsinu Brautarholt 4A í Reykjavík, þar sem musterið er enn til húsa. Eftir að hafa fengið rýmra húsnæði gat musterið Hekla sótt um að verða hækkað í Riddaramusteri og var musterið hækkað af br. SGM Thorleif Hansen þann 24. apríl 1964.

Það var svo í árslok 1983 að Samfrímúrarar óskuðu að selja hlut sinn í húsinu og flytja í stærra húsnæði. RM Hekla keypti þá hlut þeirra, en í stað þess að halda áfram að vera með starfsemina í rishæðinni var ákveðið að segja upp leigjanda þriðju hæðar, sem var lítið leðuriðnaðarfyrirtæki, og umbreyta hæðinni að okkar þörfum. Þriðja hæðin var mun stærri en rishæðin og gaf möguleika á stærri og betri musterissal og rýmra húsnæði til annarra nota. Vekefnið að hreinsa allar innréttingar sem fyrir voru út og byggja frá grunni að okkar þörfum, var gríðarstórt. En sjálfboða-hópur bræðranna var stór og starfsfús, og 26 bræður unnu verkið, samtals 4.156 vinnustundir voru skráðar á þá. Allt var síðan tilbúið til vígslu nýja musterissalarins á 35 ára afmælisdegi Heklu, þann 17. júlí 1984, þegar Odd Rohde Hansen SM og allt meistararáð Stórmusteris Noregs og Íslands vígði musterissalinn. RM Hekla á nú þrjár fyrstu hæðir hússins og leigir út 1. og 2. hæð, en við höfum afnot af sal á 2. hæð fyrir bræðramáltíðir o.fl.

Félagatal og félagaaukning hefur verið jafnt flest árin, t.d. var félagafjöldi í lok árs 1986 71 og í lok síðasta árs, 2010, voru 67 virkir félagar í musterinu. Fundarsókn er afar góð, var að meðaltali 59,3% á fundum musterisins á árinu 2010.

Annar meistari RM Heklu var br. Björn Magnússon, prófessor theol, og var hann í því embætti til 1. janúar 1981, eða í 22 ár. Undir öruggri stjórn hans dafnaði musterið og stækkaði. Hann vann m.a. það mikla verk að þýða lög reglunnar á íslensku, einnig leiðbeiningar og önnur gögn. Hann fór jafnfram yfir og endurbætti siðbókaþýðingar Jóns Árnasonar og vélritaði og batt inn allar siðbækur frá 1. til 7. stigs. Þegar varðstöð var stofnuð á Akureyri þýddi hann á íslensku Varðstöðvarsiðbók og leiðbeiningar og veitti aðstoð við stofnunina.
Þegar br. Björn hætti sem meistari 1. janúar 1981 tók Jóhann E. Björnsson við starfi meistara af föður sínum og var hann meistari RM Heklu til 1. janúar 1992. Meðan hann var meistari RM Heklu  sat hann einnig í stjórn Stórmusteris Noregs og Íslands í 6 ár sem SKN (kapelán).

Þriðji meistari RM Heklu var br. Einar Þ. Guðmundsson og var hann jafnframt fulltrúi Íslands í Stórmusteri Noregs og Íslands og gegnir hann enn því embætti.  Einar var meistari til 1. janúar 2005, þegar núverandi meistari, Valdimar Ásmundsson tók við embættinu. Hann er jafnframt Riddarakapítula meistari fyrir Ísland.

Það hefur verið fastur vani Heklubræðra í tugi ára að aka norður til Akureyrar að hausti og heimsækja RM Öskju. Gestrisni Öskjubræðra og eiginkvenna þeirra hefur lokkað fleiri og fleiri til ferðar norður yfir fjöll og þar verður enginn fyrir vonbrigðum. Bræðurnir og systurnar á Akureyri hafa ávallt eitthvað óvænt í pokahorninu til að gleðja gestina að sunnan.

Ég vil einnig minnast á tvo þætti sem ég tel mikilvæga í starfsemi okkar Heklubræðra.
Í fyrsta lagi vil ég nefna morgunkaffið okkar í Brautarholtinu, þar sem við komum saman milli kl. 8 og 9 á fimmtudagsmorgnum og drekkum saman morgunkaffi eða te. Það eru 8-15 bræður sem reglulega taka þátt  í þessum samkomum okkar og eiga góða stund saman með umræðu um allt milli himins og jarðar.
Í öðru lagi vil ég minnast á stutta kvöldferð í júníbyrjun ár hvert upp í Mosfellsdal að stað þar sem heitir Katlagil. Þar er lítið hús í eigu grunnskóla, í fögru rjóðri í skógivöxnu landi. Þar koma saman bræður ásamt konum sínum. Farið er í stutta gönguferð, svo grillar hver sinn skammt á stóru kolagrilli og síðan tekur við góð stund með söng og gleði. Einn bræðranna var skólastjóri skólans og hefur því aðgang að þessum fagra stað. Þessi stutta ferð nýtur mikilla vinsælda.

Öll þessi starfsemi, fram yfir hið hefðbundna reglustarf, er okkur mikilvæg, við kynnumst e.t.v. nýjum hliðum á hvorum öðrum, og slíkt bindur okkur betur saman í bræðra- og systraböndum.

Jóhann Emil Björnsson.