Kynning á RM

Musterisriddarar, hverjir eru þeir?
Þeir sem eru félagar í reglu Musterisriddara, kalla sig Musterisriddara. Á Íslandi eru um 90 félagar í tveimur félagsdeildum, í Reykjavík og á Akureyri. Þessar deildir eru nefndar Musteri, og teljast ásamt 27 musterum í Noregi til Stórmusteris Noregs og Íslands (STNI).

Regla Musterisriddara (RMR) er reglufélag, þar sem einungis karlmenn geta orðið félagar. Lágmarksaldur til inngöngu í musteri er 21 ár, en engin hámarksaldur.

Í RMR eru félagar á öllum aldri. Þeir eru dreifðir um Norðurlöndin og eru úr flestum starfsstéttum

Hvers vegna lokað félag?

Regla musterisriddara er svokallað lokað félag, þ.e. að þeir sem hafa áhuga á inngöngu þurfa að hafa meðmæli þriggja félaga og vera samþykktir til móttöku. Félögum er ekki heimilt að ræða við utanreglumenn um starfið á reglufundum.

Þrjár ástæður eru til þess að reglufélag okkar er lokað, söguleg, hugsjónaleg og hagkvæm.

Í elstu reglufélögum sem kunn eru frá því snemma á miðöldum, var þess krafist að félagarnir héldu starfinu í reglufélaginu leyndu gagnvart umheiminum. Það var nauðsynlegt til að vernda félagana gagnvart því samfélagi , er veitti mönnum ekki sama andlegt frelsi og nú tíðkast og búast mátti við að þátttaka í félagsskapnum væri talin fela í sér starfsemi í andstöðu við stefnu valdhafanna.

Af þeim sökum þróuðust reglufélög og bræðralög. Starf okkar í RMR er framhald af samtökum fyrri tíma og af því leiðir, að við höldum reglustarfi okkar lokuðu af sögulegum ástæðum.

Hugsjónalega ástæðan fyrir því að halda leyndu starfi RMR er sú, að það kemur í rauninni ekki neinum öðrum við en þeim, sem af frjálsum vilja og að eigin ósk hefur kosið að tengjast félagsskapnum. Enga aðra varðar um það. Þegar við rökstyðjum að starf okkar í RMR er leynilegt, hljótum við að leggja um leið áherslu á, að þær hugsjónir sem RMR  leggur til grundvallar starfi sínu, eru ekki leyndarmál. Þar er að finna hugsjónir, sem við viljum fúslega veita öðrum hlutdeild í.

Við viljum stuðla að þroska hvers einstaklings með þátttöku í félagi okkar, svo að þeir geti notfært sér þá aðstoð, sem félag okkar veitir honum, til að vinna að framkvæmd hugsjóna sinna í daglegu starfi í samfélaginu.

Við höfum engin opinber né stjórnmálaleg keppikefli eða markmið. Með öllu starfi okkar stefnum við að því að þroska einstaklinginn og veita honum frelsi til sjálfstæðrar þróunar.
Félagar RMR hafa fullt frelsi í öllum stjórnmálalegum og trúarlegum efnum.

Höfnum áfengi.

RMR á rætur sínar að rekja til þeirrar baráttu gegn áfengisneyslu sem hófst í USA snemma á nítjándu öld, bæði í sögulegu og hugsjónarlegu samhengi. Röksemdin fyrir skipulögðu starfi gegn neyslu áfengra drykkja var og er enn sú, að menn vildu hvorki spilla sjálfum sér né umhverfi sínu með því að verða ölvaðir, svo að þeir hefðu ekki lengur vald yfir athöfnum sínum.

Sá sem vill verða frjáls, verður það ekki með því að neyta áfengis, því að áfengi spillir frelsi manns og sjálfstæði, þar sem heili manns og meðvitund verða háð áhrifum áfengisins. Musterisriddarar meta frelsi mikils og einmitt þess vegna höfnum við áfengisneyslu í hvaða mynd sem er, af því að við viljum vera frjálsir menn, sem vita hvað þeir gera.

Reynslan sýnir að án áfengis er unnt að lifa hamingjusömu og tilgangsríku lífi. Og við kveðum svo fast að orði, að einmitt af því að við höfnum áfengi, njótum við meiri gleði en þeir sem finnst þeir verði að neyta áfengis til að gera sér fagnað og dagamun. Félagsstarfsemi RMR er fullgild sönnun þess að sú fullyrðing er sönn.

Reglufélag.

Í sögu mannkyns er getið um ýmiskonar reglufélagsskap. Þegar í fornöld voru til lokuð reglufélög, þar sem menn sóttu fram mót háleitum markmiðum.

Í umræðum um samfélag manna er æ ríkari áhersla lögð á hin andlegu lífsgildi og að baráttan milli góðs og ills, sem yfir stendur, er andleg barátta, en ekki hagsmunaeinvígi tveggja máttarvalda. Mönnum hefur ávallt verið ljóst, að máttur andans er meiri en stríðsvaldið. Nú verður fleiri ljóst, að framþróun veraldar verður að byrja í sjálfum þeim. Andans máttur í okkur sjálfum er ein af mestu auðlindum veraldarinnar. Hlutverk RMR hefur ætíð verið að leysa þá krafta úr læðingi. Þess vegna er hún reglufélag.

Grundvöllur reglunnar.

Hugsjónalegu undirstöðu Reglunnar nefnum við grundvöll eða grundvallarreglur. Grundvöllurinn á að standa óbreyttur um alla tíð. Það heit höfum við gefið forverum okkar. Hins vegar breytist mannfélagið sí og æ og starfið verður áhrifalítið ef ytra skipulag er ekki lagað að aðstæðum. Þess vegna er greint á milli hugsjónalegs grundvallar og hagnýtra starfsaðferða. Grundvallarreglurnar kveða á um það, sem við þurfum að vita um tilgang og markmið: Að RMR er samfélag fulltíða manna, sem stofna vilja bræðralag á siðferðilegum og félagslegum forsendum, til þess að þroska með sér kærleika, trúmennsku, ábyrgð og skyldurækni.

RMR krefst mikils af félögum sínum, en hún gefur þeim líka mikið. Við viljum keppa að háleitum markmiðum sem sannir heiðursmenn í daglegu lífi okkar, og að því vill Musterið stuðla með starfsemi sinni.

Félagarnir verða að vinna heit um algjört bindindi á alla áfenga drykki og önnur vímuefni, og ekki mega þeir heldur fást á nokkurn hátt við framleiðslu né verslun með slík efni.

Gildir ævilangt.

Þetta atriði, að þátttaka í RMR gildir alla ævi manns, vekur hjá mörgum spurninguna: Getur verið rétt að vinna heit, sem felur svo mikið í sér? Þetta er samviskuspurning sem hver og einn verður að svara fyrir sig, en við sem höfum þegar unnið slíkt heit og aldrei iðrast þess, rökstyðjum afstöðu okkar með þessu móti:

Vilji maður hafa stjórn á lífi sínu, verður hann að hafa ákveðna stefnu. Hann verður að eiga sér markmið að stefna að, og hann verður að komast áfram í átt að markinu með nokkrum hraða. Til þess að taka stefnu, er nauðsynlegt að vita, ekki aðeins hvar maður er staddur og hvert maður ætlar. Stefnan verður miklu vissari, ef þetta þrennt er vitað: Hvaðan kem ég, hvar er ég og hvert á ég að fara?

Hvaðan
Hvar
hvert

RMR getur lýst samtímamanninum eins og hann er. Lýst honum sem ábyrgri, andlegri veru, þeirri veru sem náð hefur æðstum þroska allra skapaðra vera sem kunnar eru, og ber þess vegna þyngsta ábyrgð. Ábyrgð ráðsmennskunnar. En RMR býr manninn undir það sem verður, þegar ævi okkar lýkur. Af því ályktum við, að ævilöng skuldbinding sé besti kosturinn. Hún veitir framtíðarsýn og öryggi um leið.

Mörgum mönnum finnst samtíð sín öryggislaus, fallvölt og ruglingsleg. Það stafar af því,  að þeir leggja of mikla áherslu á hagnýta hluti og gleyma því, að maðurinn er fyrst og fremst andleg vera. Að það sem greinir okkur frá öðrum verum er andi okkar, sál, eða skynsemi. Við gefum okkur hreinlega ekki tíma til að skyggnast inn í hið innra í okkur sjálfum. Þess vegna höfum við kosið að verða Musterisriddarar ævilangt með órjúfanlegri skuldbindingu. Við þörfnumst þess að horfa alla ævi inn í okkur sjálfa, eftir leiðsögn þeirrar kerfisbundnu aðferðar, sem RMR hefur mótað í rás sögunnar.

Regla Musterisriddara í nútímanum.
Æðimargt í RMR er sótt til þeirra hugsjóna sem Musterisriddararegla miðalda hafði að grundvelli sínum, en Regla okkar tíma gerir ekki tilkall til að vera áframhald af hinni fornu Musterisriddarareglu. Hún vill þó, með því að bera sama nafn, kenna sig við þær háleitu hugsjónir sem lágu að baki starfi fornu Reglunnar.

RMR er bræðralag sem metur menn ekki eftir stöðu þeirra eða hefðarvaldi. Hún skeytir ekki um auðæfi, menntun eða aðra yfirburði.

Hún verður þér samastaður sem getur með áhrifum sínum kynt undir ímyndunarafli þínu, draumum og sköpunargáfu. Hún veitir þér hægt og hægt innsýn á lífið í kringum þig. Að fallast á það eða hafna því á þínum eigin forsendum, en skyggnast samt bak við ytra borðið og öðlast skilning á hugsunum og gildismati, sem geta komið þér sjálfum að liði þegar þú ert orðinn meðvitandi um þær.

RMR trúir á mátt ljóssins, kærleikans og trúmennskunnar. Ljós og gleði eru Musterisriddurum voldug máttarvöld.

Sé litið til baka í sögu mannkyns kemur í ljós að allt eru þetta sjónarmið sem þar eru skráð, svo framarlega sem menn hafa getað skilað lífsreynslu sinni til næstu kynslóðar. En jafnframt eru þetta verðmæti sem deilt er um enn í dag. Þetta er hvorki hluti af sögu né samtíð, heldur blátt áfram grundvöllur allra samskipta manna, alls þess sem rétt er eða rangt manna á meðal, hamingju eða harma. Svona einfaldur er boðskapur okkar frá örófi alda, svona einföld er röksemdin fyrir tilveru Musterisriddara í dag.

Starfsemi Reglu Musterisriddara á Íslandi.

Einsog fyrr er getið nefnast félagsdeildir Reglunnar Musteri. Reglan festi rætur hér á landi árið 1949 þegar Musterið Hekla var stofnað 17. júlí það ár. Sá maður sem átti mestan þátt í að koma Reglunni á fót á Íslandi var Jón Árnason prentari, sem gerðist félagi í Reglunni í Færeyjum 1947. Hann var fyrsti yfirmaður, Meistari, Heklu. Stofnendur voru 19.

Riddaramusterið Hekla er með aðsetur að Brautarholti 4a í Reykjavík. Reglan starfar eftir ákveðnu stigakerfi ( 12 stigum). Fundir eru tveir í mánuði yfir vetrarmánuðina. Starfið gengur vel og nýir félagar hafa reglulega bæst í bræðrahópinn. Eiginkonur Heklubræðra hafa einnig með sér félagsskap, systrafélagið Iðunni.

Árið 1970 var stofnuð deild Musterisriddara á Akureyri, svonefnd Varðstöð og 1981 var síðan Musterið Askja stofnað þar. Riddaramusterið Askja er til húsa í gömlu og virðulegu húsi að Strandgötu 23. Í Öskju fer fram blómlegt starf og vaxandi.
Nú á tímum hraða og streitu er mönnum hollt að sækja styrk í góðan félagsskap meðal manna sem leggja áherslu á bræðralag og uppbyggingu síns innra manns. Við bjóðum velkomna menn sem hafna alfarið neyslu áfengis og annarra vímuefna og hafa áhuga á að tengjast hugsjónafélagsskap sem byggir á kristilegum gildum.